Skóflustunga tekin að nýju hjúkrunarheimili

 

Þann 18. nóvember 2021 var tekin fyrsta skóflustungan að nýju og glæsilegu hjúkrunarheimili á Húsavík. Það gerði Aldey Unnar Traustadóttir forseti sveitarstjórnar Norðurþings, hjúkrunarfræðingur hjá HSN og notaði hún til verksins beltagröfu. Mun heimilið standa í hlíðinni fyrir ofan sjúkrahús HSN með frábært útsýni yfir bæinn.

 

Á vef Framkvæmdasýslunar – Ríkiseigna stendur;
„Skipulag sambýliseininga styður við heimilisbrag með vistlegum einkarýmum fyrir hvern íbúa sem snúa flest að bænum og frábæru útsýni yfir Skjálfanda og Kinnarfjöll. Starfsaðstaða er mjög góð þar sem þjónusturými eru miðlæg og vegalengdir stuttar innan hverrar deildar. Heimiliseiningar eru allar jafnstórar og hönnun þeirra auðveldar mönnun og flæði milli þeirra, þ.m.t. yfirsýn yfir heimilið í heild og starfsfólk nýtist m.a. betur á nóttunni. Heimilið er bjart, auðvelt aðgengi er út undir bert loft frá setustofum til að njóta útsýnis og veðurs og tilhögun einkarýma gerir auðvelt fyrir íbúa að rata í herbergi sín.“

Heimilið verður alls 4.400 fermetrar að stærð. Ríkið greiðir 85% af framkvæmdakostnaði við bygginguna, en sveitarfélögin Norðurþing, Þingeyjarsveit, Skútustaðahreppur og Tjörneshreppur það sem upp á vantar. Áætlaður kostnaður er um þrír milljarðar.
Óhætt er að segja að hér sé um risaframfaraskref í heilbrigðisþjónustu á svæðinu að ræða sem ber að fagna.